Kettlingar og eldri gæludýr

Jafnvel þó eldri hundurinn þinn eða köttur hafi búið áður með öðrum dýrum á heimilinu án vandkvæða er það ekki trygging fyrir því að nýi kettlingurinn þinn fái góðar móttökur!

Sum afar skapmild eldri dýr munu taka hvaða nýja gæludýri sem er opnum örmum. Oftast mun þó jafnvel skapbesti hundur eða köttur sýna áhyggjur þegar nýr kettlingur birtist.

Þegar þú kemur heim með nýjan kettling þarf eldri hundurinn eða kötturinn helling af auka athygli. Hann þarf að vera viss um að þér þyki enn vænt um hann og að nýliðinn sé ekki að fara ógna stöðu hans á heimilinu.

Nýi kettlingurinn þinn

Þegar þú kemur fyrst heim með nýjan kettling er best að einangra hann aðeins. Veldu hlutlaust herbergi (ekki þar sem eldri dýrin eru vön að sofa). Þetta gefur þér tíma til þess að hughreysta eldra dýrið og á sama tíma og það ver ungliðann frá mögulegri árásargirni þess eldri.

Staður fyrir kettlinginn

Útbúðu svæði fyrir kettlingin þar sem er bæli, klórustaur, kattaklósett, matar- og vatnsskálar ásamt leikföngum. Settu kettlinginn inn í herbergið og leyfðu honum að skoða sig um á meðan þú ert enn inni. Láttu hann svo einan í smá stund svo hann geti komið sér vel fyrir í nýju umhverfi.

Í fyrstu gæti kettlingurinn falið sig. Reyndu að lokka hann fram úr felustaðnum til þess að hughreysta hann. Ekki fara of hratt í það. Hann mun smátt og smátt verða öruggari gagnvart þér.

Fyrstu kynnin

Dýr kynnast hverju öðru í gegnum lykt. Eldra dýrið þitt mun eyða miklum tíma í að þefa undir hurðina á herberginu þar sem kettlingurinn er. Kettlingurinn gerir það sama hinu megin frá.

Eftir einn eða tvo daga ættir þú að geta metið viðbrögð eldra dýrsins við kettlingnum. Hundur sem er spenntur að hitta kettlinginn mun klóra í hurðina og dilla skottinu, á meðan köttur mun mala og almennt virka forvitinn eða vinalegur. Ef hins vegar hundurinn þinn urrar eða geltir á hurðina eða eldri kötturinn þinn hvæsir eða virðist í uppnámi gæti verið best að bíða í fáeina daga í viðbót með nánari kynni.

Taktu því rólega

Þegar eldra dýrið þitt virðist reiðubúið kynntu þá dýrin tvö með því að opna hurðina rétt þannig að þau sjái hvort annað og geti lyktað af hvoru öðru. Gættu þess að vera nálægt til þess að hafa umsjón með ferlinu. Eftir viðbrögðunum að dæma opnaðu þá hurðina meira í stuttan tíma þar til þau venjast nálægð við hvort annað án þess að vera í uppnámi. Þetta ferli getur tekið nokkra daga en reynist yfirleitt vel.

Í fyrsta skiptið sem dýrin hittast alveg augliti til auglitis ætti tíminn að vera stuttur og vonandi án uppnáms. Ef eldra gæludýrið er hundur mun viðeigandi taumur koma í veg fyrir hann nái að elta og hræða kettlinginn.

Ekki þvinga aðstæður. Leyfðu dýrunum að fara eins nálægt eða haldi sig jafn fjarri og þau vilja. Endurtaktu stutta hittinga eins oft og þarf þar til dýrin þola að vera á sama svæði, undir eftirliti. Ekki búast við vináttu undir eins – það tekur tíma.

Að finna öllum stað

Fullvissa þarf eldra gæludýrið um að nýliðinn muni ekki taka yfir svæðið hans. Ef dýrið á uppáhalds svefnstað skaltu ekki leyfa kettlingnum að sofa þar. Bjóddu nýliðanum sín eigin leikföng.

Dýr eru oft eigingjörn á matinn sinn og matarskálarnar. Helst ætti kettlingurinn að éta sitt eigið kettlingafóður og skálarnar ættu helst að vera í öðru herbergi eða á öðru svæði en eldri dýrsins ef hægt er.

Hafðu umsjón með matmálstímum til að tryggja að hvorugt dýrið ýti hinu frá matnum sínum. Þar sem mælt er með kettlingafóðri fyrstu 12 mánuðina gæti verið góð hugmynd að fóðri kettlinginn í lokuðu herbergi um tíma.

Þrátt fyrir að hágæða fóður samsett fyrir alla aldurshópa veiti heilstæða og vel samsetta næringu fyrir bæði dýr þá þarfnast eldri kötturinn þinn ekki auka hitaeininganna úr kettlingafóðrinu ef hann á til að verða of þungur. Eins ef eldri kötturinn er á fóðri fyrir þyngdartap eða þyngdarstjórnun mun kettlingurinn ekki fá alla þau auka næringu sem hann þarfnast fyrir vöxt og þroska ef þau deila mat.

Best er að gefa dýrunum fóður sem er sniðið að lífsskeiði þeirra.

Kattaklósett

Þegar tveir eða fleiri kettir eru á heimili deila þeir oft kattaklósetti en margir eldri kettir kæra sig ekki um að deila kassa með kettlingi, í það minnsta ekki meðan þeir eru enn að aðlagast.

Að bjóða upp á tvo kassa gæti komið í veg fyrir að eldri kötturinn færi að fara út fyrir kassann til að gera þarfir sínar í uppreisnarskyni.

Vinir, vinveittir óvinir eða óvinir

Það gæti tekið ár eða meira fyrir eldra gæludýrið þitt og kettlinginn að taka hvort annað í sátt. Kannski verða þau aldrei vinir en læra þess í stað að umbera hvort annað.

Jafnvel þó þau virki ekkert of ánægð með hvort annað kunna flest gæludýr að meta annan hlýjan líkama á heimilinu á meðan eigendurnir eru ekki heima. En oftast með tímanum finnur meirihluti gæludýra samband sem virkar fyrir þau þó þau verði ekki endilega bestu vinir!

Áður en þú kemur heim með kettling

  • Láttu dýralækni skoða kettlinginn þinn til þess að tryggja að hann sé við góða heilsu og án sníkjudýra.
  • Vertu viss um að allar bólusetningar eldra gæludýrsins séu í gildi.
  • Árásargirni er minnkuð ef bæði dýrin eru geld eða tekin úr sambandi (kettlingurinn á viðeigandi aldri).

Eftir að þú kemur heim með kettling

  • Einangraðu kettlinginn fyrst þegar þú kemur heim með hann.
  • Kynntu eldra gæludýrið og kettlinginn smám saman.
  • Virtu svæði eldra dýrsins og forgang
  • Bjóddu upp á sér matar- og vatnsskálar, leikföng og kattaklósett.